Bjarnarhýðið

Bjarnarblogg

A bear by name, not by nature

Víkingur 100 ára

vrijdag, september 07, 2007

Heimsmeistarakeppnin byrjar

Tvær mínútur liðnar af fyrsta leiknum í þeirri heimsmeistarakeppni sem er númer þrjú á vinsældalistanum mínum. Fylgdist með minni fyrstu á eftirminnilegan hátt sumarið 1995, úrslitin voru auðvitað ekkert nema þjófnaður með matareitrun. Man minna eftir 1999 en fyrir fjórum árum gat ég fylgst betur með, nema þá var tímasetning leikjanna (og núna skorar Argentína fyrstu stig keppninnar) erfið.
Nú er ekkert til fyrirstöðu því að sjá sem flesta leiki, allt á skikkanlegum tíma og í riðlakeppninni eru nær allir leikir sem skipta máli um helgar.
Það sem er auðvitað verst er að 20 liða keppni með fjórum riðlum er ekki mikill vafi um það hvaða lið komast áfram (og Frakkar jafna). Það er ekki nema helst spurning um hvort Ítalía nái að skjóta Skotum ref fyrir rass.
Nú er auðvitað mál að kynna keppnina almennilega til sögunnar, þetta er auðvitað heimsmeistarakeppnin í rúgbí. Haldin í Frakklandi í þetta sinn (að mestu, Skotland og Wales fá að spila aðeins á heimavöllum) og ef Frakkar keppa ekki við Alsvarta í úrslitum (Argentína kemst aftur yfir) þá verða allir afskaplega hissa. Ítalía er nýbúin að fá að vera með í Fimmþjóðakeppninni, sem heitir núna Sex þjóða. Síðan er suðurhvels þriggjaþjóða keppnin og þá erum við komin með níu bestu þjóðirnar. Annars er það helst Argentína sem er með almennilegt lið, en Írland ætti að vera of sterkt fyrir þá í riðlakeppninni. Suðurhafseyjarnar líða fyrir að flestir bestu leikmanna þeirra enda hjá Alsvörtum eða Áströlum, en ég held í vonina að Samóa vinni England. Þá glotti ég.
Nema hvað, stuðningur minn er sem ætíð eindreginn með Alsvörtum sem eins og venjulega hafa verið með yfirburðalið milli keppna, en hafa verið með eindæmum óheppnir eða klaufskir þegar á hólminn er komið. Nú er kominn tími á titil númer tvö og Daniel Carter sýnir að hann er langbestur.

Labels: ,