Bjarnarhýðið

Bjarnarblogg

A bear by name, not by nature

Víkingur 100 ára

maandag, oktober 30, 2006

Endurfundir

Liðin helgi var meiri háttar. Byrjaði á vinnupartíi á föstudegi sem var ágætis skemmtun en ég tók því rólega enda langur laugardagur framundan. Kannske er það eins gott miðað við myndirnar sem gengu í vinnunni í dag. Ekkert dónalegt, flýti ég mér að taka fram, en greinilega mikið fjör.
Klukkan 11 á laugardaginn var síðan haldið í næsta bæjarfélag og fagnað fertugsafmæli Böðvars vinar míns með þessum fína brönsj. Þurfti reyndar að fara burt í miðju 'bíó', hefði verið gaman að sjá meira af myndunum þeim. En ég átti eftir að útrétta aðeins fyrir kvöldið og síðan sá ég stóran hluta af stórleik og stórsigri United á Bolton. Fegurri bolta hafa mínir menn ekki spilað í mörg ár.
Og svo leið að kvöldi og rétt rúmlega á tilsettum tíma (þetta eru jú Íslendingar) fóru fyrrverandi 9-Hingar anno 1984 að láta sjá sig í Giljalandinu. Þetta er í fyrsta skipti í þrettán ár sem þessi öðlingsbekkur heldur partí og það var ljóst af stemmingunni að þetta var langþráð. Reyndar voru ekki nema um 13-15 manns á staðnum en ég held ég geti fullyrt að allir skemmtu sér stórkostlega. Það verður alveg víst að ekki líða önnur þrettán ár í næsta partí, enda er nú búið að hafa upp á netföngum nær allra í bekknum og þarf því ekki að hafa mikið fyrir að boða liðið. Og fyrir utan almennileg partí verður örugglega hóað á kaffihús af og til, t.d. þegar einhverjir útlaganna láta sjá sig á klakanum.
Allir voru sammála um að enginn hafi breyst nokkurn skapaðan hlut (sumir reyndar orðnir fetinu hærri...) fyrir utan að hárböndin hafa týnst og hvítir lokkar í hári löngu horfnir (og ekki komnir aftur.... enn...)
Síðustu gestir fóru rétt fyrir þrjú og sunnudagurinn var rólegur eftir því.