Pálmi Eyjólfsson 1920-2005
Eftirfarandi er minningargrein um Pálma Eyjólfsson fv. sýslufulltrúa á Hvolsvelli sem birtast mun í Morgunblaðinu einhver næstu daga. Pálmi var líklega skemmtilegasti og glaðasti maður sem ég hef kynnst.
Þegar Pálma Eyjólfssonar er minnst hlýtur fyrsta hugsun flestra að vera lífsgleði hans og vinarþel. Ég þekkti hann frá blautu barnsbeini, eins og aðrir uppaldir Hvolsvellingar og betur en margir þökk sé tryggrar vináttu þeirrar hjóna við fjölskyldu mína. Síðar þegar ég kom sem eldra barn og unglingur í lengri heimsóknir austur kom oftar en ekki fyrir að ég færi í heimsókn til þeirra heiðurshjóna Pálma og Margrétar. Pálmi var alltaf þolinmóður í garð guttans, þó að aldrei næði ég að taka alla hluta hjólböruprófsins sem dugði lengi sem góðlátlegt grín milli okkar.
Ég veit að ég er ekki einn um það að líta á Pálma sem nokkurs konar táknmynd Hvolsvallar, fulltrúa frumbýlinganna sem byggðu upp þetta litla þorp til þess að þjónusta sveitirnar í kring. Hann sá allar þær breytingar sem urðu á tuttugustu öldinni, frá því að lítil verslun flutti þangað, uppbyggingu þorpsins sem síðar hægði á þegar samgöngur til höfuðborgarinnar bötnuðu og loks enduruppbyggingu eftir flutning SS þangað.
Pálmi var einn af þeim skáldmæltu Íslendingum sem ortu til náttúrunnar sem þeir unnu og batt vináttu sína í stuðla og höfuðstafi til heiðurs samferðamönnum sínum.. Þannig endurspeglaðist hann sjálfur og umhyggja hans fyrir landi og lýðum í ljóðum hans.
Það var því ætíð sönn ánægja að sækja þau hjón heim þegar leið mín lá um Suðurland, setjast niður og njóta samveru við þau aftanstund. Eina slíka áttum við móðir mín með þeim Margréti og Pálma fyrir tæpum mánuði síðan. Pálmi fylgdi okkur úr hlaði, glaður í bragði sem endranær og kvaddi okkur með virktum. Það er kveðjustund sem er viðeigandi sem hinsta minning um góðan mann.
Björn Friðgeir Björnsson
<< Home