Bjarnarhýðið

Bjarnarblogg

A bear by name, not by nature

Víkingur 100 ára

dinsdag, januari 01, 2008

Gleðilegt nýtt ár

Það kemur fyrir að morgunhaninn ég vakna klukkan þrjú, og ég tek því yfirleitt bara vel.
Sama var upp á teningnum í dag en það óvenjulega var að klukkan var þrjú eftir hádegi. Ekki alveg persónulegt met, en miðað við að ég var kominn í koju fyrir tvö í nótt, vissulega vel að verki staðið. Hvort þetta bendir til að á árinu breytist ég í B-persónu verður að koma í ljós. En fyrir vikið varð þetta að náttfatadegi, sem sumir bloggarar hafa keppst við að dásama sem hámark hvíldar og afslöppunar. Ég get eiginlega bara tekið undir það.
Jólin voru eilítið endaslöpp eins og sagði í síðustu færslu. Eftir gott aðfangadagskvöld sló humarinn og kampavínið sem ég fékk mér í jólahádegismat mig í ból og ég rétt komst í jólaveisluna um kvöldið, með snert af hálsbólgu. Veislan var hins vegar þess virði að komast í, m.a. uppskar ég eina bestu gjöf jólanna, heila krukku af einhverju mesta gómsæti sem ég þekki, heimagerðri chilisultu. *jömmí*. Hálsbólgan hafði mig svo undir á annan og ég rétt komst í vinnu á föstudeginum. Lá síðan í bæli mest alla helgina og svaf næsta óreglulega. Rétt náði að hafa mig út og kaupa fallega steik til að hafa á gamlárskvöld, enda hafði fast boð undanfarinna ára dottið uppfyrir. Ég var síðan varla kominn úr vinnu í gær þegar bróðir hringdi og bauð mér í mat. Ég átti síðan rólega kvöldstund með þeim og komast að því að þau höfðu verið í svipuðum veikindum sem skýrði síðbúið boð, enda óljóst fram á síðustu stundu hvernig heilsan var. Rólegheitin voru því mjög kærkomin okkur öllum þremur og veislan mjög góð. Næstu áramót verður þetta vonandi svipað, þá jafnvel með meiri fyrirvara.
Sem fyrr segir er dagurinn í dag búinn að vera afskaplega stuttur og rólegur en ég dreif mig í eldamennsku, og eldaði án asa humarinn og steikina sem ætluð hafði verið gamlárskveldi. Vil hrósa ríkinu fyrir að hafa tekið upp á því að selja kvartflöskur af víni, fyrir vikið er ekki hálftóm flaska að bíða dauða síns einhvern næstu daga þegar ég kemst að því að afgangurinn er orðinn skemmdur.
Hefði kannske getað valið sjónvarpsefnið betur í dag, komst að því sem mig grunaði að Matrix Revolutions er hrein og klár steypa og með alkalískemmdum að auki. Breiðavíkurmyndin var auðvitað skylduáhorf, en ekki er hún skemmtiefni.
Ætli ég hressi mig ekki við fyrir svefninn með smá Buffy, og aðeins meira af eðalstöffi frá Benjamín og Jeremíasi. Það klikkar hvorugt.
Óska síðan lesendum mínum (öllum tíu) gleðilegs nýs árs með kærum þökkum fyrir lesturinn síðasta árið, ég veit að ég hef ekki ofgert neinum!

Labels: