Bjarnarhýðið

Bjarnarblogg

A bear by name, not by nature

Víkingur 100 ára

maandag, juli 19, 2004

Guðni rektor

Ég hafði lítið af Guðna rektor að segja mín fjögur ár í MR. Var aldrei tekinn á teppið og aðeins einu sinni hljóp hann í skarðið sem forfallakennari og ég man satt best að segja ekki mikið eftir þeim tíma, held hann hafi samt ekki kennt Schlieffen planið. Eina sögu hef ég samt af honum að segja. Eins og vel þekkt var forðaðist hann að mæta þegar MRingar stóðu í keppnum og var því ekki við þegar ég var að Geta Betur. Við unnum hljóðnemann á föstudegi, án Guðna meðal áhorfenda. Þar sem minna var gert úr keppninni þá en nú, og að auki vorum við tveir af þremur í miðjum stúdentsprófum var ekkert geim eftir keppni og ég geymdi gripinn yfir helgina. Mætti síðan í próf á mánudagsmorgni, íslensku ef ég man rétt, jafnvel stíl. Prófið var á sal, og ég sat framarlega og var með verðlaunagripinn við stólinn hjá mér í prófinu. Þegar eitthvað var liðið á prófið heyri ég gengið að mér, og þar var Guðni kominn og rétti fram höndina. Þétt handtak var allt sem þurfti til að segja mér hversu mjög hann mat góða frammistöðu okkar félaganna áður en hann snerist á hæl og truflaði mig ekki frekar í prófabaráttunni.
Vel er þekkt barátta Guðna rektors fyrir hefðum MR. Í minningargreinum í dag er sagt frá sigri hans yfir lágkúrunni "Menntaskólinn við Lækjargötu" og endurreisn grísku og fornfræða. Ég veit vel að margir undu ekki vel í MR, en sjálfur var andinn mér mjög að skapi. Varaskólinn minn var MH en ég veit núna að ef ég hefði ekki verið í bekkjarkerfi hefði ég átt mun verri menntaskólaár. Að steypa alla skóla í sama mót er firra. Hefð verður að eiga sinn stað í skólakerfinu. Sumir eiga heima í MR, aðrir í Versló, MH eða fjölbrautum.
Guðna Guðmundssonar verður minnst vel meðan nemendur í rektorstíð hans koma saman, og jafnvel lengur.