Aumingjabloggari snýr aftur
Nú er kominn nóvember og ég er enn ekki alveg orðinn hress. Já, áður en þú spyrð, þá er ég orðinn þreyttur á þessu. Ef ég verð enn slappur á mánudag ætla ég alvarlega að íhuga veikingafrídag.
Annars er næsta lítið að frétta, nóg að gera í vinnunni og ýmislegt utan hennar hefur þurft að sitja á hakanum. Augnföndrið tókst vel, ég lít eilítið öðruvísi út.
Í gær var vinnufélagi kvaddur sem er á leið í aðra deild. Úr varð ágætis kvöld, ég tók rólega á málum, hálf rauðvín nægði. Og þar sem bæði Nanna og Erlingur ræða um að sofa út er rétt að taka fram að ég svaf til 4. Þ.e.a.s. í morgun. Í þrjá tíma. Ég kann engan veginn að sofa út, telst hátíð að sofa til 8. Enn verra ef ég var í glasi, greinilegt að ekki þarf mikið. Reyndar hjálpaði ekki að ég vaknaði með púls upp á ca. 120. Ég á það til, og já ég er í eftirliti. Eitthvað var ég stressaður því þetta róaðist ekki fyrr en um 90 mín. síðar. Þá var mér lífsómögulegt að sofna aftur. Ég kann það nefnilega ekki heldur. Það gerist fyrir slysni einu sinni eða tvisvar á ári. Síðan dreif ég mig í vinnuna og rumpaði smá mánaðarmótaverkefni af.
Ligg núna hóstandi og hlusta á Söruh McLachlan.