Kominn tími á langa færslu um fótbolta, tónlist og ferðalög. Er búinn að vera hálf lumbrulegur alla vikunna, alla leið síðan á leiknum Víkingur - Breiðablik á mánudagskvöld, en snilldarmark á síðustu mínútunni gerir það að verkum að ferðin í Keflavík á eftir þarf ekki að skila nema jafntefli. Og ég öskraði úr mér röddina á leiknum.
Það er búið að vera meira en nóg að gera í vikunni enda ekki nema 2-3 af fjórum í deildinni í vinnunni vegna brúðkaupsferðalaga, enda gifti helmingur deildarinnar sig í sumar og haust. Ekki hvort öðru þó. Ég er núna að reyna að ná mér nógu vel úr þessum skemmtilega þurra hósta sem hrjáir mig til að komast til Kef, en helst þó ná mér nógu vel til að geta með góðri samvisku fengið mér einn eða tvo. Það nefnilega stefnir í að Víkingar verði í soltlu stuði. Minn ágæti vinnuveitandi og aðalstuðningsaðili ætlar að gefa rútuferðirnar. Húrra fyrir þeim!!
Þetta verður í fyrsta skipti á ævinni sem maður fer svona á útileik með trukki og dýfu. Næstum ensk stemming. Amk ef heilsan heldur.
Talandi um fótbolta, þá var leikurinn gegn Þjóðverjum flottur! Ég er eiginlega á því að það að þurfa sigur úti sé bara mesta snilld. Reyndar með nýjum köllum í brúnni eru minni líkur á undirlægjuhætti og væli um að við getum nú reyndar ekki neitt og eigum bara að stefna á tapa lítið. Nú verður bara að spila grjótharðan bolta, hleypa þýskurum hvergi áfram og læða inn einu í annarri sókninni... Þetta er alveg hægt.
Einn af gríðarmörgum kostum mp3 er auðvitað að búa til spilunarlista uppáhaldslaganna sinna (þarf reyndar að bæta á m3u-ið það nokkrum ný rippuðum lögum) og vita það að öll lög sem detta á handahófskendann hátt inn í eyrun á manni eru á bilinu frábær til stórkostleg (now playing: I Hold Your Hand in Mine. (bókstaflega, sko) Verðlaun fyrir fyrsta rétta svar um flytjandann í comment). Áðan var að rúlla í gegn einhver magnaðasti dúett allrar óperusögunnar. Jussi Björling og Robert Merrill syngja Au Fond du Temple Saint úr Perluköfurunum. Besti tenór allra tíma og einn besti barýtóninn syngja hugsanlega besta dúett í óperu. Þannig var einmitt þegar ég kom til Sydney og þeir áttu miða fyrir á sumaróperuna var það einmitt Perlukafararnir sem ég fór á. Ég verð reyndar að vera sammála að Bizet hafi ekki verið að gera neitt sérstakt þarna, en Au Fond... er held ég bara næg ástæða fyrir að skrifa eitt stykki óperu. Og þegar hlé er í óperuhúsinu í Sydney og maður stendur frammi með glas af Kir Royal í hendi og horfir út um glugga á stærð við fótboltavöll yfir dimma höfnina á ljósin hinu megin... þá er ekki alveg aðalmálið hver óperan er.