Bjarnarhýðið

Bjarnarblogg

A bear by name, not by nature

Víkingur 100 ára

dinsdag, juli 26, 2005

Út í geim

Horfði á geimskutluskotið í beinni. Þvílík tilfinning. Mannkynið verður að halda áfram geimferðum, kostnaður eða ekki. Aftur til tunglsins, áfram til Mars.
Það er ekki margt sem ég myndi frekar vilja sjá en Marslendingu manna, nema kannske geimlyftu og ég hef fulla trú að sjá annað eða bæði áður en yfir lýkur.

zondag, juli 24, 2005

Líkamsárás Kristjáns Finnbogasonar

Djöfulli var þetta ljótt. Kristján Finnbogason má prísa sig sælan að hafa ekki hitt Hörð Sveinsson þegar sá síðarnefndi skoraði 3ja mark Keflavíkur gegn KR. Brjálæðingurinn kom útúr teignum og tók fljúgandi tæklingu með fótinn á undan í lærishæð. Það er eitthvað að ef hann fær ekki nokkurra leikja bann. Enn ein ástæðan til að hata helvítis KR.

Aftur niður á jörðina

En, nei, flestir dagar eru eins og í dag, og því leitar hugurinn til útlanda. T.d. um næstu helgi.

zaterdag, juli 23, 2005

Ef allir dagar væru eins og í dag myndi ég fara sjaldnar til útlanda. Og hugsa minna til útlanda.

Sól

Það er sól! og hlýtt! Vá...
Búinn að liggja í sólbaði meira eða minna og held því áfram. Það var fyrir svona daga sem ég flutti í Fossvoginn og eignaðist garð. Einhver óþekktur vinnufélagi minn hafði fyrir því í gær að setja upp þessa skemmtilegu ræmu Ég sé fyrir mér frægð og frama fyrir okkur Kanslarann í Hollývúd.

vrijdag, juli 22, 2005

Allt orðið eðlilegt á ný.

Ástralir settu í venjulega gírinn í dag, 279 hlaup, og eru 314 yfir. Aumingja Englendingar... þeir sem byrjuðu svo vel.
Þetta gæti orðið sorgarsumar. Og þó.
Þvílík bongóblíða. Það er ekki oft sem ég opna kalda hvítvín til að súpa út'á svölum. En núna ætla ég í Berserkjakjallarann.

donderdag, juli 21, 2005

Hasar!

Ert'ekk'að grínast. Englendingar rúlla upp 'ströllunum í fyrstu lotunni, 190 hlaup og hrynja svo sjálfir eins og haustlauf í roki. Og svo hættir allur hasar um leið og ég kem heim. Ég held að menn hafi eitthvað misskilið þetta og haldið að þetta sé einsdagsleikur. Og Pietersen er barasta að standa sig.

woensdag, juli 20, 2005

Tom Lehrer

Tom! Lehrer! á myndbandi! á vefnum! hérna!
*squeeeee*

zaterdag, juli 16, 2005

Harry Potter

Náði mér í frátekinn Potter í Eymundsson kl 10 í morgun. Þeir áttu ófráteknar bækur, ólíkt síðast þegar ég kom eitthvað um hálfeitt um nóttina, allt búið.
En alla vega, bókin er bara ágæt, skemmtilegri en OotP. Smelli kannske spoilerum inn í komment hér á eftir, ykkur er velkomið að gera sama.

donderdag, juli 14, 2005

Að taka sénsinn

Þeir tóku sénsinn. Pietersen er í liðinu. "Erfiðasta ákvörðun sem ég hef tekið þátt í" sagði Graveney, formaður valnefndarinnar. Djarfasta val lengi í enska landsliðinu. Vona að strákurinn standi sig.
Fjölnir-Víkingur í kvöld upp í sveit. Tek Berserkjarútuna til að vera viss um að rata á leikinni

woensdag, juli 13, 2005

"breskir ríkisborgarar"

Vill einhver útskýra fyrir mér hvenær talað er um menn fædda í Bretlandi sem 'breska' og hvenær sem 'breska ríkisborgara'.
500 bónuspunktar fyrir hvern þann sem getur komið með skýringu sem ekki byggir á húðlit, trú og uppruna foreldra.
Og já, fyrir þá sem ekki sáu forsíðu Moggans í morgun, þá voru "Tilræðismennirnir breskir ríkisborgarar"
Þetta er fyrir neðan allar hellur.

Árás að innan

Skyldi Björn 'stríðsherra' Bjarnason vilja taka á málum núna og uppræta hryðjuverkaógnina "með vestrænni hervæðingu" og bomba Leeds?
Ef svo er, væri nokkuð hægt í leiðinni að missa eins og eina niður á Elland Road?

dinsdag, juli 12, 2005

Samstaða

Það er gaman að sjá að bandaríski herinn í Bretlandi sýndi samstöðu með íbúum Lundúna eftir fimmtudaginn og átaki þeirra í að koma borginni á kjöl sem allra allra fyrst...
...með því að banna hermönnum og starfsliði sínu að ferðast til Lundúna. Banninu var loksins aflétt í dag.
Orð fá varla lýst fyrirlitningu minni.

maandag, juli 11, 2005

Hefði betur þagað.

Ástralir rúlluðu þessu upp í gær og Pietersen var slakur. En öskurnar verða samt spennandi.

zaterdag, juli 09, 2005

Stóra enska íþróttaspurningin.

Eftir að London fékk Ólympíuleikana, Gerrard ákvað að vera áfram (næsta árið) og Alsvartir rúlluðu upp bresku og írsku ljónunum 21-3, 48-18 og 38-19 núna í morgun (svo er bara að vona að þeir haldi sér í formi fram að HM'07, Daniel Carter!!!vúaaah!) þá er bara ein spurning eftir sem brennur á enskum íþróttaunnendum:
Thorpe eða Pietersen.
Thorpe er búinn að vera meginstoð Englendinga í gegnum árin, þykkt og þunnt og oftar en ekki verið eini stjörn kylfingurinn þeirra en er núna að nálgast efri ár, er þó eins og þarna kemur fram í fantaformi þó oft sé spurning um heilsuna.
Pietersen er á hinn bóginn nýja eins dags stjarnan, rústaði Suður-Afríku í vetur, átti þrusu innu (inna (kvk) þýðing á enska orðinu 'innings') fyrr í sumar gegn Áströlum en fékk ekki að komast að á fimmtudaginn þegar England rúllaði yfir Ástrali án þess að missa nema eina vikku.
Nassar Hussain, fyrrum fyrirliði Englands, benti á hið augljósa þegar hann sagði á fimmtudaginn að við kæmumst að því einhvern tímann næsta árið hvort Pietersen ætti erindi í fimmdaga landsliðið. En það er ekki málið, spurningin er hér og nú.
Til að gera þetta allt flóknara þá verður þetta mest spennandi Öskusería í mörg mörg ár. England er með besta lið sem ég man eftir, kastarar á heimsmælikvarða og hver þrusukylfinginn á fætur öðrum og Thorpe á fullt erindi þar inn. Ef hann er heill.
Það er bara eitt atriði sem gerir útslagið fyrir mig að ég vil sjá Pietersen koma inn, a.m.k. í öðrum leik. Hann er Suður-afrískur. Ef hann væri þvottekta Tjalli er auðvelt að sjá fyrir sér svona Henman dæmi, bjarta enska vonin kemur, sér og gerir í brækur. En þannig bara verður það ekki með Pietersen, hann er ekki búinn að vera nema nokkur ár í Englandi, ekki nóg til að átta sig á að enska leiðin er lúser-hetjan.
Nema nátt'lega stöku menn eins og Ian Botham.
Eins dags leikur á morgun og svo byrjar alvaran 21. júlí.

vrijdag, juli 08, 2005

Ed McBain

Allar aðrar fréttir féllu í skuggann í gær, en ég get ekki sleppt að minnast þess að Ed McBain er látinn, dó á miðvikudaginn. Ætli hann eigi ekki eins og einn hillumetra hjá mér.

donderdag, juli 07, 2005

Allir heilir

Held ég sé búinn að heyra frá flestum ef ekki öllum vinum mínum í London. Það er gott, allir heilir á húfi so far.

woensdag, juli 06, 2005

Bráður skortur á skopskyni í Vesturbænum

Af KR vefnum:
"Öruggir áfram, fögnum í Víkinni," stóð í dreifimiða sem Berserkir, stuðningsmenn Víkinga, báru í hús daginn fyrir leik. Árið 1949 auglýstu Víkingar "... klukkan 8.30 í kvöld verða Víkingar meistarar eftir 25 ára baráttu .." Það gekk heldur ekki eftir því Víkingar töpuðu fyrir Val og KR varð meistari eftir sigur á Fram í aukaleik um titilinn. Víkingar þurftu að bíða í önnur 32 ár eftir titlinum.

Ójá. Þetta var nefnilega svo sambærilegt. Við félagarnir höfðum þó nokkuð fyrir því að hugsa upp fyndna og bjartsýna fyrirsögn sem ekki væri nokkur leið að taka alvarlega. Spilamennskan á mánudag fór nefnilega fram úr okkar björtustu vonum, þó að úrslitin hafi veri súr. En að reyna að ýja að því að þetta hafi verið vanmat eða grobb er bara svo stjarnfræðilega fyndið. Ef það er eitthvað sem Víkingar kunna ekki þá er það bjartsýni.

Ræktin

Þvældi mér í ræktina í morgun. Annars er ég andlaus og máttlaus. Er búinn að bóka næstu utanlandsferð, mæti á Clarecraft eins og svo oft áður. Var reyndar að spá í að sleppa því, en lét undan sjálfum mér. Fjórir dagar í tjaldi, vonandi rignir ekki. Nú rata ég allavega á pöbbinn. Ágætt að finna út úr því fimmta skiptið sem ég fór.
Fer ég of oft til útlanda? Á reyndar alltaf eftir að efna loforð um að fara með mömmu til Prag. Eitthvað til að hugsa um í haust.

maandag, juli 04, 2005

Ótrúlegt

Þetta var svo ótrúlega ósanngjarnt. Við yfirspiluðum KR frá 25. mínútu gegnum allan leikinn og í framlengingunni.
Og mér hefur alltaf fundist ótrúlega sárt að tapa í vítakeppni í sjónvarpinu. Þetta var milljón sinnum verra.
Við hljótum að fara upp þegar við spilum svona restina af sumrinu

Listin að hata

Eftirfarandi pistill mun birtast í leikskránni í kvöld, að sjálfsögðu á mína eigin ábyrgð. Það verður fróðlegt að sjá hvort einhverjir KRingar taka þessu ver en skyldi.
------------
Það var á leik Víkings og Fram í fyrra að nokkrir skemmtilegir gestir létu sjá sig. Þar voru komnir stuðningsmenn Shelbourne sem gátu ekki látið eitt kvöld líða án þess að horfa á fótbolta og komu því í Víkina til að eyða góðu kvöldi og hita upp fyrir leik KR og Shelbourne daginn eftir. Með lagni tókst að fá þá til að setjast Víkingsmegin í stúkuna og studdu þeir Víkinga duglega í leiknum og létu sjá sig á spjallinu á vikingur.net næstu vikur á eftir. En með einu þóttust þeir vita að þeir gætu komið öllum í stúkunni í gott skap, og sameinað þessi tvö Reykjavíkurfélög.
En þegar söngurinn ómaði:
Stand up if you hate KR
stóðu um 5 aðrir upp og tóku undir.
Það hefur ýmislegt gengið á í stúkum Íslands en það verður seint sagt að andrúmsloftið sé þrungið meira en óbeit, eða í mesta lagi óvild. En ég stend stoltur upp og segi: "Ég hata KR".
Ég flutti í vesturbæ Reykjavíkur þegar ég var 8 ára, fullmótaður Víkingur frá Hvolsvelli. Þetta var í þann mund sem gullöld Víkings var að hefjast í handboltanum, mér tókst meira að segja að fá vin minn, mikinn KR-ing í öllu öðru til að koma á handboltaæfingu í Réttó með mér. Okkur tókst reyndar að vera 90 mínútur að koma okkur heim og ég var settur í æfingabann. En næstu árin var ljúft að vera Víkingur, handboltamenn höluðu inn titlum og í fótboltanum hirtum við tvo Íslandsmeistarbikara, meðan jafnaldrar mínir KRingar þekktu ekki fyrirbærið.
En alltaf var KR 'stórveldið'.
Líklega er þetta ástæðan. En það er erfitt að festa hendur eða huga á því. Það er síður en svo að dregið hafi úr hatri mínu á KR. Með velgengninni hefur drifið að hið vel þekkta fyrirbæri 'gloryhunters', sem eru alla jafna grobbnari en aðrir og gera það auðveldara fyrir mig að hata KR. En mér finnst í raun ónauðsynlegt að tína til ástæður. Ég hata KR. Ég hata ekki KR-inga. Ég á meira að segja vini sem eru KR-ingar. Og þeir vita að ég hata KR.
Núna ættu held ég nógu margir að vera hættir að lesa og þá slæ ég fram staðhæfingunni sem á eftir að stuða suma. Mér finnst vanta hatur í íslenska boltann. Bara svolítið hatur. Ekki nóg til að beita ofbeldi, alls ekki. Bara nóg til að eiga smá erfitt með svefn þegar liðið sem þú hatar vinnur þitt lið, eða verður meistari, eða gengur vel í Evrópukeppni. Því að ef þú hatar eitthvað annað lið, þá verða tilfinningarnar til þíns eigin liðs þeim mun sterkari.
Þetta á reyndar ekki eftir að verða algengt í íslenska boltanum, því rekstur liðanna byggir á svo mörgum sem komið hafa að nýju liði þegar börnin fara að æfa í hverfisliðinu. En það er samt ætti samt að vera nóg af okkur hinum sem styðjum okkar lið með öllu því sem það fylgir, þar með talið að hata erkiféndurnar.
Það er bara eitt vandamál. Það er orðið ansi langt síðan að KR þurfti að hafa áhyggjur af Víkingum. Reyndar stálu þeir sigri hér í Víkinni í fyrra, en það skipti litlu. En í kvöld skiptir þetta máli. Í kvöld eygjum við Víkingar sem hötum KR tækifæri til að gera þeim lífið leitt. Þess vegna ætla ég að standa upp í kvöld ef einhver hvetur þá sem hata KR til að standa upp. Og vona, dreyma og vænta þess að einn góðan veðurdag verði Víkingur félagið sem allir KR ingar hata.

zondag, juli 03, 2005

Rómarmyndir

Myndirnar frá Róm eru komnar upp