Eftirfarandi pistill mun birtast í leikskránni í kvöld, að sjálfsögðu á mína eigin ábyrgð. Það verður fróðlegt að sjá hvort einhverjir KRingar taka þessu ver en skyldi.
------------
Það var á leik Víkings og Fram í fyrra að nokkrir skemmtilegir gestir létu sjá sig. Þar voru komnir stuðningsmenn Shelbourne sem gátu ekki látið eitt kvöld líða án þess að horfa á fótbolta og komu því í Víkina til að eyða góðu kvöldi og hita upp fyrir leik KR og Shelbourne daginn eftir. Með lagni tókst að fá þá til að setjast Víkingsmegin í stúkuna og studdu þeir Víkinga duglega í leiknum og létu sjá sig á spjallinu á vikingur.net næstu vikur á eftir. En með einu þóttust þeir vita að þeir gætu komið öllum í stúkunni í gott skap, og sameinað þessi tvö Reykjavíkurfélög.
En þegar söngurinn ómaði:
Stand up if you hate KRstóðu um 5 aðrir upp og tóku undir.
Það hefur ýmislegt gengið á í stúkum Íslands en það verður seint sagt að andrúmsloftið sé þrungið meira en óbeit, eða í mesta lagi óvild. En ég stend stoltur upp og segi: "Ég hata KR".
Ég flutti í vesturbæ Reykjavíkur þegar ég var 8 ára, fullmótaður Víkingur frá Hvolsvelli. Þetta var í þann mund sem gullöld Víkings var að hefjast í handboltanum, mér tókst meira að segja að fá vin minn, mikinn KR-ing í öllu öðru til að koma á handboltaæfingu í Réttó með mér. Okkur tókst reyndar að vera 90 mínútur að koma okkur heim og ég var settur í æfingabann. En næstu árin var ljúft að vera Víkingur, handboltamenn höluðu inn titlum og í fótboltanum hirtum við tvo Íslandsmeistarbikara, meðan jafnaldrar mínir KRingar þekktu ekki fyrirbærið.
En alltaf var KR 'stórveldið'.
Líklega er þetta ástæðan. En það er erfitt að festa hendur eða huga á því. Það er síður en svo að dregið hafi úr hatri mínu á KR. Með velgengninni hefur drifið að hið vel þekkta fyrirbæri
'gloryhunters', sem eru alla jafna grobbnari en aðrir og gera það auðveldara fyrir mig að hata KR. En mér finnst í raun ónauðsynlegt að tína til ástæður. Ég hata KR. Ég hata ekki KR-inga. Ég á meira að segja vini sem eru KR-ingar. Og þeir vita að ég hata KR.
Núna ættu held ég nógu margir að vera hættir að lesa og þá slæ ég fram staðhæfingunni sem á eftir að stuða suma. Mér finnst vanta hatur í íslenska boltann. Bara svolítið hatur. Ekki nóg til að beita ofbeldi, alls ekki. Bara nóg til að eiga smá erfitt með svefn þegar liðið sem þú hatar vinnur þitt lið, eða verður meistari, eða gengur vel í Evrópukeppni. Því að ef þú hatar eitthvað annað lið, þá verða tilfinningarnar til þíns eigin liðs þeim mun sterkari.
Þetta á reyndar ekki eftir að verða algengt í íslenska boltanum, því rekstur liðanna byggir á svo mörgum sem komið hafa að nýju liði þegar börnin fara að æfa í hverfisliðinu. En það er samt ætti samt að vera nóg af okkur hinum sem styðjum okkar lið með öllu því sem það fylgir, þar með talið að hata erkiféndurnar.
Það er bara eitt vandamál. Það er orðið ansi langt síðan að KR þurfti að hafa áhyggjur af Víkingum. Reyndar stálu þeir sigri hér í Víkinni í fyrra, en það skipti litlu. En í kvöld skiptir þetta máli. Í kvöld eygjum við Víkingar sem hötum KR tækifæri til að gera þeim lífið leitt. Þess vegna ætla ég að standa upp í kvöld ef einhver hvetur þá sem hata KR til að standa upp. Og vona, dreyma og vænta þess að einn góðan veðurdag verði Víkingur félagið sem allir KR ingar hata.